Samantekt fyrir 2022

Inngangur

Umhverfisstofnun er falið að fara með eftirlit með markaðssetningu, afhendingu, merkingum og gerð og samsetningu plastvara sem falla undir laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með samræmdum hætti á landinu öllu. Eftirlit er framkvæmt í samræmi við eftirlitsáætlun sem stofnunin setur fram til eins árs í senn. Eftirlitsáætlun fyrir árið 2022 var samþykkt og birt á vef stofnunarinnar þann 5. október 2022.

Markmið eftirlitsins er að fylgja eftir banni og endurgjaldskröfu á burðarpokum og tilteknum einnota plastvörum og fá yfirlit um stöðu mála hjá atvinnulífinu. Eftirlitsþættir fyrir árið 2022 voru eftirfarandi:

  • Bann við afhendingu burðarpoka án endurgjalds óháð efnisvali, sbr. 37. gr. b.
  • Bann við afhendingu burðarpoka úr plasti, sbr. 37. gr. c.
  • Bann við að setja tilteknar plastvörur á markað, sbr. 37. gr. e.
  • Endurgjald sem sýnilegt er á kassakvittun við afhendingu tiltekinna einnota plastvara, sbr. 37. gr. f.

Eftirlitsþegar

Val á eftirlitsþegum byggði á fyrirliggjandi upplýsingum hjá Umhverfisstofnun, upplýsingum um fyrirtæki með starfsleyfi frá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga, upplýsingum um fyrirtæki frá Skattinum og almennri leit á netinu. Áhersla var lögð á að ná til fyrirtækja sem starfrækja fleiri en eina starfsstöð og þá mögulega líka á landsbyggðinni. Eftir þá síu voru fyrirtæki valin af handahófi með hjálp tölvuforrits og urðu fimm heildsölur, fimm matvöruverslanir og sex veitingasölur fyrir valinu. Reynt var að hafa fjölbreytni í tegundum veitingasala til að ná til breiðs hóps svo hægt væri að fá heildræna mynd.

Fyrirtæki
Starfsemi
Ekran ehf.
Heildsala
RMK ehf.
Heildsala
Eignarhaldsfélagið Áfangar ehf.
Heildsala
Danól ehf.
Heildsala
Papco fyrirtækjaþjónusta ehf.
Heildsala
Hagkaup (Hagar verslanir ehf.)
Matvöruverslun
Bónus (Hagar verslanir ehf.)
Matvöruverslun
Nettó (Samkaup hf.)
Matvöruverslun
Krambúðin (Samkaup hf.)
Matvöruverslun
Krónan ehf.
Matvöruverslun
Huppuís ehf.
Ísbúð
Te og kaffi hf.
Kaffihús
Bakarameistarinn ehf.
Bakarí
Subway (Stjarnan ehf.)
Skyndibiti
Sambíóin ehf.
Kvikmyndahús með veitingasölu
Olís ehf.
Vegasjoppur

Niðurstöður

Staðan er almennt góð hjá heildsölum og þegar búið að finna ýmsa staðgöngukosti. Í ljósi þess að heildsölur eru fyrstu viðkomustaðir einnota vara og flest fyrirtæki, svo sem verslanir og veitingasölur, reiða sig á vöruframboð sem er í boði innanlands mun þetta hafa áhrif á markaðinn í heild sinni og draga úr líkum á að ólöglegar vörur séu í umferð.

Staða markaðssetning á einnota plastvörum hjá matvöruverslunum sem falla undir ákvæði banns skv. 37. gr. e. er almennt í samræmi við ákvæði laganna. Sums staðar gætti þó þess misskilnings að lögin giltu ekki um lífplast eða plast sem er lífbrjótanlegt. Ákvæði laganna gilda hins vegar um plast óháð því hvort það er framleitt úr jarðolíu eða af lífrænum uppruna (lífplast). Undanskilið er plast sem er búið til úr náttúrulegum fjölliðum sem ekki hefur verið breytt með efnafræðilegum aðferðum. Meðhöndlunin skiptir því máli og hvort íblöndunarefnum hafi verið bætt við eða ekki. Að sama skapi gilda ákvæðin óháð því hvort plastið sem um ræðir sé lífbrjótanlegt (e. biodegradable), endurvinnanlegt (e. recyclable) eða moltanlegt (e. compostable).

Markaðssetning tiltekinna einnota plastvara sem falla undir ákvæði banns skv. 37. gr. e. er almennt í góðum málum hjá veitingasölum og var yfirleitt búið að klára birgðir af þeim og skipta út fyrir staðgöngukosti. Mikið var um frávik vegna endurgjaldskröfu tiltekinna einnota matar- og drykkjaríláta sem kveðið er á um í 37. gr. f. Sums staðar gætti misskilnings um hvað teljist einnota vara úr plasti en það er óháð því hversu mikið hlutfall vörunnar er úr plasti. Þannig telst pappamál, sem hefur örþunna plastfilmu, engu að síður vera einnota vara úr plasti og þarf gjald fyrir slíka vöru að vera til staðar á kassakvittun.

Við birtingu þessarar samantektar er eitt útistandandi mál.