Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur skilað skýrslu (National Inventory Report) um losun gróðurhúsalofttegunda til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) þar sem er að  finna ítarlegar upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, þróun frá 1990 til 2016, ásamt lýsingu á aðferðafræðinni sem notuð er til að meta losunina.

Árið 2016 var losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi,[1] 4.669 kílótonn af CO2-ígildum, sem er aukning um rúmlega 28% frá árinu 1990 (3.634 kt CO2-íg.), en samdráttur um tæplega 2% frá árinu 2015 (4.749 kt CO2-íg.). Losun Íslands árið 2016 með landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt jókst um 8,5%, frá 1990 til 2016 (úr 13.727 í 14.893 kt.CO2-íg.).

Meginástæður samdráttar í losun milli 2015 og 2016, án landnotkunar, eru minni losun frá fiskiskipum, álframleiðslu og kælimiðlum. Þá hefur niðurdæling CO2 frá jarðvarmavirkjunum einnig leitt til minni losunar út í andrúmsloftið.  Þrátt fyrir að heildarlosunin hafi dregist saman milli ára, hefur losun aukist verulega frá ákveðnum uppsprettum, eins og vélum og tækjum (12%) og vegasamgöngum (9%). Stærstu uppsprettur gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2016, án landnotkunar, voru málmiðnaður (38%),  vegasamgöngur (19,5%), fiskiskip (11%), iðragerjun jórturdýra (6,6%) og urðun úrgangs(4,6%).

Samkvæmt tvíhliðasamningi um sameiginlegar efndir á skuldbindingum Íslands og ESB við Loftslagssamninginn er losun frá viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda (Emission Trading System - ETS) ekki hluti af þeirri losun sem talin er til skuldbindinga Íslands. Árið 2016 féllu 38% af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi frá staðbundnum iðnaði undir gildissvið viðskiptakerfis ESB, þ.m.t. öll stóriðja. Losun Íslands sem fellur undir sameiginlegar efndir hefur dregist saman um 7,4% frá árinu 2005, sem er viðmiðunarár í samningum Íslands og ESB.

 

 

Breyting 1990-2016

Breyting 2005-2016

Breyting 2015-2016

Viðskiptakerfi ESB (staðbundinn iðnaður)

98,7%

108,1%

-2,0%

Losun er fellur undir beinar skuldbindingar Íslands

5,5%

-7,4%

-1,5%

Heildarlosun

28,5%

17,4%

-1,7%

 

Í ágúst 2017 var losunarbókhald Íslands tekið út af úttektarteymi á vegum Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem leiddi til þess að losun frá nokkrum uppsprettum var endurreiknuð fyrir skilin nú. Endurútreikningarnir leiddu til þess að tölur yfir álega losun fyrir árin 1990-2016 hækkuðu m.v. áður birtar tölur. Nánar má lesa um losun og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum hér.

 



[1] Án losunar frá alþjóðaflugi, alþjóðasiglingum, landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt.