Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Samantekt fyrir 2024

Inngangur

Umhverfis- og orkustofnun er falið að fara með eftirlit með markaðssetningu, afhendingu, merkingum og gerð og samsetningu plastvara sem falla undir laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með samræmdum hætti á landinu öllu. Eftirlit er framkvæmt í samræmi við eftirlitsáætlun sem stofnunin setur fram til eins árs í senn. Eftirlitsáætlun fyrir árið 2024 var samþykkt og birt á vef Umhverfisstofnunar þann 7. mars 2024.

Markmið eftirlitsins er að fylgja eftir banni og endurgjaldskröfu á burðarpokum og tilteknum einnota plastvörum og fá yfirlit um stöðu mála hjá atvinnulífinu. Eftirlitsþættir fyrir árið 2024 voru þeir sömu og fyrir 2023 eða eftirfarandi:

  • Bann við afhendingu burðarpoka án endurgjalds óháð efnisvali, sbr. 37. gr. b.
  • Bann við afhendingu burðarpoka úr plasti, sbr. 37. gr. c.
  • Bann við að setja tilteknar plastvörur á markað, sbr. 37. gr. e.
  • Endurgjald sem sýnilegt er á kassakvittun við afhendingu tiltekinna einnota plastvara, sbr. 37. gr. f.

Eftirlitsþegar

Val á eftirlitsþegum byggði á fyrirliggjandi upplýsingum hjá Umhverfis- og orkustofnun, upplýsingum um fyrirtæki með starfsleyfi frá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga, upplýsingum um fyrirtæki frá Skattinum og almennri leit á netinu.

Sama fyrirkomulag og áhersla var haft og við valið á eftirlitsþegum árið 2023, þ.e. að reyna að ná til fyrirtækja sem starfrækja fleiri en eina starfsstöð og líka á landsbyggðinni. Fyrirtæki voru valin af handahófi urðu fjórar heildsölur, fjórar matvöruverslanir og sjö veitingasölur fyrir valinu. Reynt var að hafa fjölbreytni í tegundum veitingasala til að ná til breiðs hóps svo hægt væri að fá heildræna mynd.

 Fyrirtæki  Starfsemi
 Garri ehf.   Heildsala 
 Aðföng     Heildsala 
 Umbúðir og ráðgjöf  Heildsala 
 Innnes  Heildsala 
 Fjarðarkaup  Matvöruverslun
 Mini market  Matvöruverslun
 Bónus  Matvöruverslun
 Pétursbúð  Matvöruverslun
 Huppa  Ísbúð
 Kaffi krús  Kaffihús
 Almar bakari  Bakarí
 KFC  Skyndibiti
 Lemon  Skyndibiti
 Bíóhúsið Selfossi  Kvikmyndahús með veitingasölu
 Laugarásbíó  Kvikmyndahús með veitingasölu

Niðurstöður

Við eftirlit í heildsölum fundust einhverjar vörur sem bannað er að markaðssetja, sbr. 37. gr. e. Þær vörur reyndust hins vegar vera eldri lager sem settur var á markað fyrir bann, var því ekki um frávik að ræða í skilningi laganna. Heilt á litið virðast heildsölur hafa staðið sig vel við að skipta út einnota plasti fyrir aðrar staðgöngulausnir og voru með góða þekkingu á regluverkinu. Hefur það verið áhersla í eftirliti síðustu ára að fara í sem flestar heildsölu til þess að stöðva flæði bannvara efst í keðjunni. Er það mat eftirlitsmanns að eftirlit síðustu ára hafi borið góðan árangur í þessari viðleitni.

Nokkur frávik voru frá ákvæði 37. gr. c. um bann við afhendingu á burðarpokum úr plasti. Eitthvað var um það að verslanir afhentu plastpoka á sölusvæði vara. Því þurfti að skerpa aðeins á reglum vegna afhendingar á burðarpokum úr plasti í eftirliti ársins.

Algengasta frávik í eftirliti reyndist vera hjá veitingasölum vegna endurgjaldskröfu tiltekinna einnota matar- og drykkjaríláta sem kveðið er á um í 37. gr. f. Allar sjö veitingasölurnar sem sættu eftirliti þurftu hér að bæta úr. Markaðssetning tiltekinna einnota plastvara sem falla undir ákvæði banns skv. 37. gr. e. er almennt í góðum málum hjá veitingasölum og var yfirleitt búið að klára birgðir af þeim og skipta út fyrir staðgöngukosti. Þrátt fyrir það reyndist vera alvarlegt frávik hjá einni veitingasölu vegna afhendingu á einnota plastvöru sem fyrirtækið hafði sjálft flutt inn eftir bann. Vegna þessarar niðurstöðu og reynslu úr eftirliti verður áhersla lögð á veitingasölur fyrir áætlað eftirlit með plastvörum 2025.

Úrbætur náðust í öllum eftirlitsmálum þar sem þeirra var þörf og við birtingu þessarar samantektar eru öllum málunum lokið.